Haute Route Tröllanna

Fjallaskíðaferð þar sem Tröllaskaginn er þveraður og bestu brekkurnar skíðaðar. Gist í góðum fjallaskálum

''Haute Route'' Tröllanna - Þverun Tröllaskaga - 6 daga ferð

Verð

  • Fjöldi 199.000.- kr.
Samtals 0.- kr.
Þú þarft ekki að fara alla leið í Alpana til að upplifa heimsklassa fjallskíðatúr, því að á Tröllaskaganum bíður þín verðugt verkefni í anda hinna frægu ''Haute Route'' eða ''Háu Leiða'' Alpanna. Í þessari einstöku ferð eru margar af bestu brekkum Tröllaskagans skíðaðar og hæstu tindar þveraðir á milli þess sem við gistum í þægilegum fjallaskálum í hjarta þessa stórbrotna svæðis. Vertu meðal þeirra fyrstu til að upplifa þessa frábæru ferð þar sem ótroðnar slóðir utan hinna almennu svæða eru í forgrunni.
 
Jökull Bergmann hefur í tvo áratugi sérhæft sig í fjallaskíðaferðum á Tröllaskaga og þessi einstaka ferð er hugarfóstur hans, þar sem skíðað er milli fjallaskála í hjarta Tröllaskagans án utanaðkomandi aðstoðar í 6 daga. Þessi ferð er ný af nálinni og eingöngu möguleg nú þar sem byggðir hafa verið fjallaskálar á undanförnum árum sem eru fullkomnlega staðsettir fyrir ferðir af þessu tagi. Við gistum í þremur mismunandi skálum sem allir eiga það sameiginlegt að vera utan alfaraleiða þannig að engir aðrir skíðamenn eru um bestu brekkurnar og sönn óbyggðaupplifun er ''garanteruð''
 
Þessi ferð er fyrir þá sem hafa reynslu af fjallaskíðamennsku, eru í góðu líkamlegu formi og eru í leit að nýjum ævintýrum. Þar sem skíðað er milli skála þurfa þátttakendur að skíða með léttan svefnpoka og mat til tveggja daga í senn þegar skíðað er í skálana. Þegar þangað er komið er pokinn léttur þar sem við gistum tvær nætur í fyrsta og þriða skála ferðarinnar en getum bætt á okkur vistum þess á milli.
 
Hvað gerir þessa ferð svona magnaða?
 
  • Vertu meðal fyrstu manna/kvenna til að prófa þessa nýju ferð
  • Margar útfærslur leiðarinnar hafa aldrei áður verið skíðaðar
  • Þetta er eina skáli-í-skála fjallaskíðaþverunin sem í boði er á Tröllaskaganum í dag
  • Þjónusta og öryggi sem felst í því að ferðast með einu faglærðu fjallaleiðsögumönnum landsins
  • Einn leiðsögumaður fyrir hverja 6 þátttakendur, sem er hámarksstærð hópsins
  • Alla vikuna ert þú að læra og bæta þig undir handleiðslu fagmanna
 
Innifalið í verði
 
  • Gisting í fjallaskálum í 5 nætur
  • Allur matur frá hádegisverði á fyrsta degi til hádegisverðar á síðasta degi
  • Leiðsögn einu faglærðu fjallaleiðsögumanna landsins
  • Akstur til og frá Akureyri í upphafi og við lok ferðar
 
Ekki innifalið í verði

  • Leiga á útbúnaði
  • Áfengir drykkir
  • Persónulegar slysatryggingar
 
Ferðaáætlun fyrir 6 daga ferð
 
 
Dagur 1
Við hittumst klukkan 08:00 á Akureyri Backpackers, snæðum morgunverð saman og förum yfir áætlun dagsins og útbúnað. Við mælum með að fólk gisti á Backpackers nóttina fyrir ferð. Eftir staðgóðan morgunverð keyrum við í norðurátt og hefjum ferðina á því að skíða í um þrjá tíma í fyrsta skála ferðarinnar þar sem við munum gista í tvær nætur. Þegar þangað er komið gefst kostur á frábærri skíðun með léttan poka í nágrenninu og svo staðgóður kvöldverður sem við sameinumst um að útbúa.

Dagur 2
Við skíðum allan daginn með létta dagpoka og það er af nægu að taka, brekkur í boði af öllum stærðum og gerðum. Eftir góðan dag á skíðum er ekkert eins gott og að komast í skálann og njóta kvöldsins í fjallakyrrðinni fjarri mannabyggðum.
 
Dagur 3
Þessi dagur er sá lengsti hvað varðar vegalengd þar sem við munum þvera heilan fjallgarð og koma niður í næsta dal þar sem nýr skáli bíður okkar. Það má gera ráð fyrir allt að 1000 metra uppferð en jafnframt enn lengri brekku niður hinumegin þar sem við þverum nokkra af hæstu tindum Tröllaskagans.

Dagur 4
Við byrgjum okkur upp af vistum fyrir næsta hluta ferðarinnar og tökum stefnuna í næsta skála þangað sem við komum eftir um þriggja tíma göngu, köstum af okkur birgðunum og tökum létta bunu.
 
Dagur 5
Hér erum við svo sannarlega í fjallaparadís og möguleikarnir á heimsklassa fjallaskíðun óendanlegir. Þar sem við gistum aðra nótt í sama skála eru pokarnir léttir og við njótum til hins ýtrasta hverrar ferðarinnar á fætur annarrar.
 
Dagur 6
Einhverntíma verða öll ævintýri að enda, en þó ekki fyrr en síðustu fallmetrarnir hafa verið skíðaðir og síðasti tindur vikunnar sigraður. Eftir góða skíðun um morguninn pökkum við saman og skíðum til byggða, þaðan sem bílferð til Akureyrar bíður. Áætluð koma til Akureyrar er seinnipart dags, nógu tímanlega til að ná flugi suður eða njóta kvöldsins í höfuðstað Norðurlands.
 
Útbúnaðarlisti fyrir Haute Route Tröllanna:
 
- Vind- og vatnsheldur jakki með öndun (Gore Tex eða sambærilegt)
- Vind- og vatnsheldar buxur (Gore Tex eða sambærilegt)
- Létt dún- eða fiberúlpa
- Skíðasokkar, 2 pör
- Nærföt, 2 sett
- Skíðabuxur (soft shell, flís)
- Flís- eða ullarpeysa
- Hanskar, 2 pör (þykkir og þunnir)
- Húfa
- Buff og/eða lambhúshetta
- Bakpoki 40+ lítra (Gera þarf ráð fyrir plássi fyrir léttan svefnpoka, auka föt og mat)
- Svefnpoki 0 til -5 gráður
- Vatnsflaska/hitabrúsi, minnst 1 líter
- Lítil sjúkrataska (Hælsærisplástrar og annað persónulegt sjúkradót)
- Sólgeraugu
- Skíðagleraugu
- Sólaráburður á andlit og varir
- Skíði (Fjallaskíði, Telemark eða split board)
- Skinn og skíðabroddar
- Skíðastafir
- Fjallaskíðaskór
- Skófla
- Snjóflóðastöng
- Snjóflóðaýlir
- Persónuleg drykkjarföng af sterkari gerðinni fyrir þá sem vilja
- Tannbursti og nauðsynlegt snyrtidót
- Myndavél
 
Bergmenn bjóða upp á fjallaskíða- og snjóflóðaútbúnað til leigu á góðu verði. Um er að ræða nýjustu Völkl skíðin, Dalbello skó og Pieps snjóflóðaútbúnað. Hafðu samband og við græjum fyrir þig allt sem þarf.

Bendum einnig á Fjallakofannfyrir þá sem vilja festa kaup á græjum, en þar er mesta úrval útbúnaðar og besta þekkingin á þessu sviði hér á Fróni.
 
 
 

Bergmenn Mountain Guides

Box 88 - 620 Dalvík
ICELAND
Sími 858 3000
info@bergmenn.com 

Subscribe to our newsletter

Don't miss out on a great deal, subscribe to our newsletter and get news and offers to your email

Follow us on ...