Það getur vissulega verið streituvaldur að pakka fyrir ferðir og leiðangra en vonandi að þessi almenni búnaðarlisti fyrir skíðaferðina hjálpi aðeins til. Eins er að finna nánari búnaðarlista undir hverri ferð fyrir sig sem gefur betri hugmynd um hvað þarf að vera með hverju sinni. Ef eitthvað af búnaði vantar þá endilega hafið samband og við reynum eftir fremsta megni að aðstoða ykkur.
ALMENNUR BÚNAÐARLISTI FYRIR SKÍÐAFERÐ
Þessi listi inniheldur allan helsta búnað í skíðaferð en endilega skoðið viðeigandi búnaðarlista fyrir ykkar ferð þegar hún hefur verið bókuð.
- Vind og vatnsheldur jakki með öndun (Gore Tex eða sambærilegt)
- Vind og vatnsheldar buxur (Gore Tex eða sambærilegt)
- Nærföt síðar/langerma (ull eða gerfiefni)
- Léttur dún eða fíber jakki
- Flís- eða ullarpeysa
- Hanskar (2 pör, þykkir, þunnir)
- Skíðasokkar (ull eða gerviefni)
- Húfa
- Sundföt
- Sólaráburður á andlit og varir
- Sólgeraugu
- Lítil sjúkrataska (hælsærisplástrar og annað persónulegt sjúkradót)
- Vatnsflaska og/eða hitabrúsi, 1-2 lítrar
- Myndavél
- Fjallaskíðaskór / Snjóbrettaskór
- Skíði (Fjallaskíði, Telemark eða split board) Mælum með 95-120mm miðjumáli
- Skinn
- Skíðabroddar (Nauðsynlegt!!)
- Skíðastafir (Helst stillanlegir, snjóbrettafólk ætti að bera þrískipta stafi)
- Snjóflóðaýlir
- Snjóflóðastöng (240cm eða stærri)
- Skófla
- Bakpoki 30-40 lítra með skíðafestingum
- Skíðagleraugu
BÚNAÐARLEIGA
Við eigum nokkuð úrval af skíðabúnaði til leigu. Fjallaskíðin okkar eru Völkl Rise Avobe 88 og Rise Beyond 96 með Marker Kingpin leigubindingum. Eins erum við með fjölbreytt úrval af öðrum Völkl skíðum á Marker Tour bindingum.
Þó við mælum ekki með að fólk leigi sér skíðaskó þá eigum við nokkurn neyðarlager af Scarpa Freedom fjallaskíðaskóm í Mondo stærðum milli 24 og 30 sem samsvarar evrustærðum u.þ.b 38-46.
Til þess að leigja búnað þarf að fylla út og senda okkur útfyllt leigubúnaðarskjal ásamt því að samþyggja skilmála leigu neðst á skjalinu. Við sendum staðfestingu á að hafa móttekið skjalið og sendum í kjölfarið staðfestingu á að sá búnaður sem óskað er sé til og á lausu. Greiðslu er svo hægt að ganga frá í gegnum greiðsluhlekk ef þess er óskað eða þegar búnaður er sóttur.