Fara í efni
FJÖLDI
Lágmark 10, hámark 12
BREKKUR
Allt frá löngum aflíðandi brekkum og jöklum til brattra gilja
FALLHÆÐ/KLIFUR
Meðaltals dagur 1000-1800 metrar 1-3 bunur á dag
Gisting
S/V Linden

Ferð á Svalbarða er kannski ekki það fyrsta sem kemur í hugann þegar hugsað er um næstu skíðaferð en hér er samt sem áður um að ræða einstakt fjallaskíðaævintýri sem ætti að vera á allra laupalista.

Við hefjum túrinn á 78 breiddargráðu í Longyearbyen þar sem við stígum um borð í viðarskonnortuna, og heimili okkar næstu daga, S/V Linden. Linden er án efa fallegasta skonnorta í heiminum í dag og skipstjórinn og góðvinur okkar Rasmus elskar fátt, ef eitthvað, meira en að sigla henni á full þöndum seglum.

Með byr í seglin yfirgefum við Longyearbyen í leit að okkar fyrstu skíðaleiðum og það er af óteljandi möguleikum að velja. Á hraðleið frá siðmenningu, ef svo má kalla Longyearbyen, tekur ósnortin náttúran við og líður ekki að löngu áður en fyrsti ísbjörninn sést við ströndina eða rostungur stingur hausnum upp á yfirborðið. Hvalir synda hér allt í kring, selirnir eru óteljandi, Svalbarðshreindýrin og refurinn ráfa um í ætisleit og heiðagæsin flýgur yfir firði.

S/V Linden er stærsta skonnorta Evrópu í dag, rétt undir 160 fet að lengd. Hún var byggð á Álandseyjum árið 1993 eftir upprunalegri mynd forvera hennar og alnöfnu sem var byggð árið 1920 sem Finnskt flutningaskip. Um borð eru 7 káettur, hver með sitt baðherbergi og sturtu, tvær setustofur, bar og gufubað. Áhöfnin er fyrsta flokks ásamt öllum helsta siglinga- og öryggisbúnaði, Linden er ísvarin og því fátt til fyrirstöðu að sigla inn ísjakafulla firði og kasta ankeri þar sem okkur hentar. Um borð er ræktaður lítill matjurtagarður og allur maturinn um borð er fyrsta flokks, auk þess fáum við að smakka á helstu villibráðinni af svæðinu. Hér er nóg pláss til að teygja úr sér eftir góðan dag á fjöllum og fátt betra en að láta þreytuna líða úr sér í gufubaði milli þess sem við stingum okkur til sunds í Grænlandshafið.

2023 Dagsetningar

VIð bjóðum upp á skíðaferðir á Svalbarða frá byrjun Maí og út Júní. Vinsamlega hafið samband varðandi mögulegar dagsetningar og frekari upplýsingar. 

 

Fyrirspurnir

Innifalið í verði 

 • 6 nætur í tveggja og þriggja manna káettum um borð í S/V Linden
 • Allur matur um borð, meðtalinn móttöku kvöldmatur og hádegismatur á brottfarardag. 
 • 1 nótt á Basecamp Hótelinu í Longyearbyen með morgunmat í tveggja manna herbergi. 
 • Þjónusta tveggja faglærðra skíðaleiðsögumanna. 
 • Þjónusta náttúrufræðings og leiðangursstjóra um borð. 
 • Leiga á bjarnafælum, blysbyssu og rifli sem borinn er af leiðsögumanni. 
 • Flutningur frá og til flugvallar í Longyearbyen.
 • Afnot af fyrstuhjálpar- og samskiptabúnaði.

Ekki innifalið í verði

 • Flug til og frá Longyearbyen
 • Búnaðarleiga
 • Áfengir drykkir  (Drykkir eru gerðir upp í lok ferðar og þarf að greiðast með peningum)
 • Ferða- og slysatryggingar
 • Kvöldmatur í Longyearbyen seinasta kvöldið og hádegismatur seinasta daginn.
 • Hafnargjöld í Barentsburg ef við heimsækjum bæinn. (U.þ.b 120 NOK á mann)
 • Þjórfé 

Dagskrá

DAGUR 1

Við lendum í Longyearbyen um miðjan dag með flugi frá Osló. Eftir stuttan akstur erum við komin í bæinn og eftir að búið er að koma fyrir búnaðnum nýtum við það sem eftir er dags til að skoða okkur um bæinn. Þegar búið er að grandskoða bæinn er haldið niður á höfn þar sem móttöku kvöldverður bíður okkar um borð í Linden. Við kynnumst áhöfninni ásamt því að fara í gegnum öryggisbúnaðinn og allt það helsta sem þarf að vita um borð. Leiðsögumenn kynna áætlun komandi daga miðað við þær aðstæður sem eru og við siglum af stað á okkar fyrsta áfangastað. 

DAGUR 2 - 6

Við siglum til Vesturs út Isfjorden, vinnum okkur upp með Vesturströndinni og veljum okkur hentuga firði og flottustu skíðalínurnar á leiðinni. Um borð er stór og þæginlegur gúmmíbátur sem ferjar okkur í land að upphafsstað skíðunar með allan búnað um morgun og við njótum dagsins á skíðum í stórbrotinni náttúru. Eftir að skíðun líkur og allir hafa fengið nóg tekur áhöfn Linden vel á móti okkur með mat og drykk, sánu og sjó áður en við höldum af stað á næsta áfangastað. Við nýtum kvöldin til að sigla og venjulega er lagt af stað eftir að kvöldmat líkur og vöknum með nýtt útsýni á hverjum degi.  Allar ferðir á Svalbarða eru ólíkar frá hvor annari og áætlun gerð dag af degi en við reynum að nýta tímann eins vel og mögulegt er hverju sinni bæði til skíðunar og eins til náttúru-, og staðaskoðunar þegar færi gefst. Hér eru starfandi kolanámur og yfirgefnar sem bera enn öll merki Sovíetríkjanna, rostungalátur og margt annað sem vert er að taka sér tíma í að skoða og höfum við einnig siglt alla leið upp til Nye Alesund sem er á 78 breiddargráðu og nyrðsta byggða ból jarðar með fasta búsetu en þar búa 30 manns aðeins 1234 km frá norðurpólnum. 

 

DAGUR 7

Sjöundi dagur markar endalok ferðarinnar, þetta er seinasti skíðadagurinn okkar sem endar á eftirmiðdagssiglingu til Longyearbyen. Við kveðjum áhöfn Linden og flytjum farangur á Basecamp Hótel og snæðum saman dýrindis kvöldverð áður en haldið er út á lífið eða í rekkju. 

DAGUR 8 (Brottfarardagur)

Seinasti dagurinn er súrsætur eins og alltaf en þó gefst nokkur tími til að skoða sig um, kíkja á Norðurpólfarasafnið og/eða búðir, áður en haldið er út á flugvöll um miðjan dag og flogið til Osló. 

 

 

Hafa Samband

Útbúnaðarlisti

FATNAÐUR

 • Vind og vatnsheldur jakki með öndun (Gore Tex eða sambærilegt)
 • Vind og vatnsheldar buxur (Gore Tex eða sambærilegt)
 • Soft Shell eða flís jakki (Valkvætt)
 • Soft Shell buxur (Valkvætt)
 • Nærföt síðar/langerma (ull eða gerfiefni)
 • Léttur dún eða fíber jakki
 • Flís- eða ullarpeysa
 • Hanskar (2 pör, þykkir, þunnir)
 • Skíðasokkar (ull eða gerviefni)
 • Hversdagsfatnaður
 • Húfa
 • Þilfars- eða Inniskór (Valkvætt)
 • Gönguskór
 • Sundföt og handklæði

SMÁHLUTIR

 • Vatnsflaska og/eða hitabrúsi, 1-2 lítrar
 • Sólaráburður á andlit og varir
 • Sólgeraugu
 • Lítil sjúkrataska (hælsærisplástrar og annað persónulegt sjúkradót)
 • Varahlutir og viðgerðir – Gott er að eiga og koma með varahluti í ykkar bindingar og skó. Leiðsögumaður ber almennan viðgerðabúnað.
 • Myndavél (Valkvætt)
 • Sjónauki (gott að hafa góðan sjónauka til að skoða dýralífið)
 • Persónuleg drykkjarföng af sterkari gerðinni fyrir þá sem vilja
 • Tannbursti og nauðsynlegt snyrtidót
 • Hleðslutæki og snúrur

SKÍÐA- OG BRETTABÚNAÐUR

 • Fjallaskíðaskór / Snjóbrettaskór
 • Skíði (Fjallaskíði, Telemark eða split board) Mælum með 95-120mm miðjumáli
 • Skinn
 • Skíðabroddar (Nauðsynlegt!!)
 • Skíðastafir (Helst stillanlegir, snjóbrettafólk ætti að bera þrískipta stafi)
 • Skíðastrappar – Notaðir til að festa skíði þegar borið er á bakinu
 • Snjóflóðaýlir
 • Snjóflóðastöng (240cm eða stærri)
 • Skófla
 • Bakpoki 35-45 lítra með skíðafestingum
 • Skíðagleraugu
 • Hjálmur (Valkvætt)
 • Belti  (létt og þæginlegt klifur/skíðabelti þegar ferðast er á jöklum)
 • Karabína (Ein læst karabína á mann)
 • Ísöxi (ein létt og stutt ísöxi sem kemst auðveldlega fyrir á bakpoka)
 • Persónuleg drykkjarföng af sterkari gerðinni fyrir þá sem vilja
 • Gott getur verið að hafa meðferðis vatnsheldan þurrpoka/sjópoka, sem passar utan um bakpokann þegar farið er milli báts og lands.

 

Við mælum með að hafa skíðaskó í handfarangri alla leið frá upphafsstað. Það er mögulegt að leigja skíðabúnað í Longyearbyen ef töskur tapast á leiðinni en skíðaskórnir eru ómissandi. 

Bergmenn bjóða upp á fjallaskíða- og snjóflóðaútbúnað til leigu á góðu verði. Um er að ræða nýjustu Völkl skíðin, Dalbello skó og Pieps snjóflóðaútbúnað. Hafðu samband og við græjum fyrir þig allt sem þarf. Við viljum einnig benda á Fjallakofann fyrir þá sem vilja festa kaup á græjum, en þar er mesta úrval útbúnaðar og besta þekkingin á þessu sviði hér á Fróni.Please have your ski boots in carry on baggage during your flights. 

Sækja búnaðarlista