Fara í efni
Fjöldi
8 gestir per leiðsögumann Hám. 12 gestir í húsi
Brekkur
Allt frá löngum aflíðandi brekkum til brattra gilja
Fallhæð/Klifur
Meðaltals dagur 800-1800 metrar 1-3 bunur á dag
Gisting
Kvíar

Kvíar - Fjallaskíðaferð

Lífið er tiltölulega einfalt á Kvíum, en einfaldleikinn er líklega einmitt það sem dregur okkur að ásamt kyrrðinni, fjöllunum og félagsskapnum. Yfir vormánuðina, frá byrjun Apríl til loka Maí eru hér kjör aðstæður til fjallaskíðunar og fjarri amstri raunveruleikans finnur maður óhjákvæmilega fyrir þeirri einangrun sem einkennt hefur Hornstrandir og ekki annað hægt en að setja sig í spor þeirra sem völdu Strandirnar fyrir heimili sín.

Kvíar í mynni Lónsfjarðar var stórbýli á sínum tíma en fór seint í eyði árið 1948 en árið 1952 flutti seinasti ábúandi af svæðinu frá Hesteyri. Húsið Kvíar stóð að mestu ósnert til ársins 2012 þegar vaskir heimamenn og gestgjafar okkar í þessum ógleymanlega stað tóku að sér að endurbyggja býlið til sinnar fyrrum dýrðar og rýflega það. Heimamenn yfirgáfu Hornstrandir í leit að betra lífi enda aðstæður til búskapar erfiðar þó hlunnindi úr sjó og björgum hafi mögulega talist næg. Í dag sækjum við hingað hlunnindi af annari sort, fjarveru frá amstri, útiveru, ró og samverustundir í faðmi fjalla og nærveru við sjó en samkvæmt þeirri skilgreiningu mun enginn þola skort.

Við komu til Ísafjarðar er tilvalið ef færi gefst að kynnast fjallaskíðamöguleikum í nágrenni bæjarins enda af nægu að taka en seinnipart dags sér hraðbáturinn Bjarnarnes svo um að skutla okkur yfir á Kvíar og í kjölfarið að sækja okkur í og úr skíðun næstu daga. Í lok dags þegar heim er komið bíður okkar dýrindis kvöldverður og kvöldvaka í gufubaðinu áður en haldið er í draumalandið. Kvíar eru með 15 uppbúin rúm í 6 herbergjum. Hér er viðarkynt sána, salerni, heit sturta ásamt góðri kyndingu og þurrkherbergi fyrir búnaðinn í lok dags. Einnig eru á staðnum kajakar til afnota þegar færi gefst ásamt skýli til fugla og refaskoðunar en refir eru tíðir gestir á svæðinu.

Brottfarir eru alla Mánudaga og gist til Laugardags frá byrjun April til loka Maí.

Athugið að það er takmarkað símasamband.

2023 DAGSETNINGAR & VERÐ

Vinsamlegast hafið samband fyrir frekari upplýsingar og lausar dagsetningar. 

FYRIRSPURNIR

INNIFALIÐ

  • Flutningur frá Ísafjarðar flugvelli
  • Allur matur frá kvöldmat á komudegi til hádegismats á brottfarardegi. (Morgunmatur, nesti og 2 rétta kvöldmatur)
  • Gisting á Kvíum í tveggja manna og kojurúmum
  • Leiðsögn fjallaleiðsögumanns alla ferðina (hámark 8 gestir per leiðsögumann)
  • Afnot af Bjarnarnesi og/eða Zodiac.

EKKI INNIFALIÐ

  • Ferðir til og frá Ísafirði
  • Búnaðarleiga (þar með talinn snjóflóðabúnaður)
  • Slysa- og ferðatryggingar
  • Áfengir drykkir

 

FERÐAÁÆTLUN

Vinsamlegast athugið að þessi ferðaáætlun er eingöngu til viðmiðunar. Bjarnarnesið er hraðskreiður bátur og við getum auðveldlega breytt áætlunum eftir veðri og aðstæðum hverju sinni.

DAGUR 1  (KOMUDAGUR)

Brottför eftir hádegismat á Bjarnarnesi frá Ísafjarðarhöfn. Við stefnum á Kvíar þar sem við munum eyða næstu dögum. Áður en haldið er af stað er gott að vera búinn að borða vel og klæða sig vel fyrir sjóferðina. Við skoðum möguleikana á skíðun á leiðinni svo það er best að hafa skíðabúnaðinn við hendina. Farið verður yfir öryggismál um borð í bátnum fyrir komandi daga ásamt því að fara yfir helstu atriði snjóflóðabúnaðarins. Ef aðstæður leyfa þá veljum við svæði til að skíða á leiðinni og förum yfir snjóflóðabjörgun og búnað áður en við skíðum fyrstu línur ferðarinnar. Þegar í Kvíar er komið bíður okkar vel útilátinn kvöldmatur og heitt gufubað.

DAGUR 2 

Fyrsti heili skíðadagurinn er tekinn snemma og haldið í Veiðileysufjörð og útsýnið úr skörðum og af tindum hér er ekki af verri endanum yfir Veiðileysufjörð og Hornvík. Brekkur valdar og skíðaðar eftir getu og aðstæðum við allra hæfi.

DAGUR 3 

Í Lónafirði er um margt að velja innan seilingar eftir stutta siglingu. Bakpokar settir á bakið, skinn á skíðin og upp skal haldið. Möguleikar héðan telja meðal annars Rangala og Rangalaskarð með útsýni yfir Hornvík eða upp frá Miðkjós upp Snók og Breiðuskarðahnjúk sem bjóða upp á frábærar skíðabrekkur. Hér er tilvalið að enda daginn á að safna bláskel áður en haldið er heim á leið. Skíðarar mýkja sig í gufubaðinu á meðan kræklingarnir meirast í pottinum.

DAGUR 4 

Það væri auðveldlega hægt að eyða vikum og mánuðum í Hrafnsfirði. Hér eru helstu tindarnir Hvítserkur, Bláfell, Hattarfell og á meðal þeirra sum af flottustu skíðaleiðum á svæðinu. Hér eru leiðir við allra hæfi, allt frá bröttum giljum til langar aflíðandi leiða frá toppi til fjöru.

DAGUR 5

Seinasti heili skíðadagurinn lítur dagsins ljós og stefnan tekin á Höfðaströnd og áætlunin að fara á top Tröllafells. Hér eins og annarstaðar á ströndum eru leiðir við allra hæfi og margar óskíðaðar línur í boði enn í dag.

DAGUR 6 (BROTTFARARDAGUR)

Brottfarardagur skal alltaf vera jafn súrsætur en eins og orðtakið segir þá verða allir góðir hlutir að taka enda. Bjarnarnesið sækir okkur snemma og flytur okkur til Ísafjarðar en þó hingað sé komið og heimleið hafin þá er samt tilvalið að enda daginn á góðu rennsli í nágrenni bæjarins áður en leiðir skiljast og haldið er heim á leið og skipulagning hefst á næstu skíðaferð.

 

 

 

FYRIRSPURNIR

ÚTBÚNAÐARLISTI

FATNAÐUR

  • Vind og vatnsheldur jakki með öndun (Gore Tex eða sambærilegt)
  • Vind og vatnsheldar buxur (Gore Tex eða sambærilegt)
  • Soft Shell eða flís jakki (Valkvætt)
  • Soft Shell buxur (Valkvætt)
  • Nærföt síðar/langerma (ull eða gerfiefni)
  • Léttur dún eða fíber jakki
  • Flís- eða ullarpeysa
  • Hanskar (2 pör, þykkir, þunnir)
  • Skíðasokkar (ull eða gerviefni)
  • Hversdagsfatnaður
  • Húfa
  • Þilfars- eða Inniskór (Valkvætt)
  • Gönguskór
  • Sundföt og handklæði

SMÁHLUTIR

  • Svefnpoki +5C
  • Höfuðljós og auka batterí
  • Vatnsflaska og/eða hitabrúsi, 1-2 lítrar
  • Sólaráburður á andlit og varir
  • Sólgeraugu
  • Lítil sjúkrataska (hælsærisplástrar og annað persónulegt sjúkradót)
  • Varahlutir og viðgerðir – Gott er að eiga og koma með varahluti í ykkar bindingar og skó. Leiðsögumaður ber almennan viðgerðabúnað.
  • Myndavél (Valkvætt)
  • Persónuleg drykkjarföng af sterkari gerðinni fyrir þá sem vilja
  • Tannbursti og nauðsynlegt snyrtidót
  • Hleðslutæki og snúrur

SKÍÐA- OG BRETTABÚNAÐUR

  • Fjallaskíðaskór / Snjóbrettaskór
  • Skíði (Fjallaskíði, Telemark eða split board) Mælum með 95-120mm miðjumáli
  • Skinn
  • Skíðabroddar (Nauðsynlegt!!)
  • Skíðastafir (Helst stillanlegir, snjóbrettafólk ætti að bera þrískipta stafi)
  • Skíðastrappar – Notaðir til að festa skíði þegar borið er á bakinu
  • Snjóflóðaýlir
  • Snjóflóðastöng (240cm eða stærri)
  • Skófla
  • Bakpoki 35-40 lítra með skíðafestingum
  • Skíðagleraugu
  • Hjálmur (Valkvætt)
  • Persónuleg drykkjarföng af sterkari gerðinni fyrir þá sem vilja
  • Gott getur verið að hafa meðferðis vatnsheldan þurrpoka/sjópoka, sem passar utan um bakpokann þegar farið er milli báts og lands.

Allar ferðatöskur ættu að vera af mjúku sambrjótanlegu gerðinni (duffel-bag), engar harðarskelja ferðatöskur. Mælt er með því að hver og enn taki með sér sinn eigin fjallaskíðabúnað og er sérlega mikilvægt að hafa með sér sína eigin fjallaskíðaklossa.

Bergmenn bjóða upp á fjallaskíða- og snjóflóðaútbúnað til leigu á góðu verði. Um er að ræða nýjustu Völkl skíðin, Dalbello skó og Pieps snjóflóðaútbúnað. Hafðu samband og við græjum fyrir þig allt sem þarf. Við viljum einnig benda á Fjallakofann fyrir þá sem vilja festa kaup á græjum, en þar er mesta úrval útbúnaðar og besta þekkingin á þessu sviði hér á Fróni.

sækja búnaðarlista